Þá er annar í Hvítasunnu kominn og í dag munum við skíra piltinn. Nafnið verður gert ljóst síðar í dag. Seinustu tvær vikur hafa verið nokkuð viðburðaríkar. Við fórum til Vestmannaeyja í barnagæslu fyrir Hlöðver bróður Sólrúnar og gekk það vel og var bara gaman. Reyndar var maður rifinn á lappir um klukkan 7 á morgnana til að gefa strákunum morgunmat. Ég er alveg búinn að sjá það að láta börnin vaka lengur til að fá að sofa lengur virkar ekki baun. Þau bara vakna á sínum tíma eins og venjulega eða eins og fyrirmyndarverkamaður sem vaknar klukkan 6 á morgnana og segir "Loksins!".

Eyjar eru verulega fínar og við vorum heppin með veður. Steini og Guðrún gerðust svo hugrökk að bjóða okkur í mat. Við fengum humar í for-og aðalrétt. Frekar mikið gott. Börnin fengu pulsu eða pylsu. Þau fá að kynnast humri og hvítvíni síðar. Svo leystu hjónin okkur út með humargjöf.

Við vorum alls í níu daga í eyjum og satt best að segja leið okkur vel. Ég hélt að þetta yrði erfiðari raun að passa þessa pilta en svo var ekki.

Jæja best að halda áfram að horfa á Sólrúnu búa til veislutertur.

Ummæli

Vinsælar færslur